layer6
Héraðsskjalasafn Austur Húnavatnssýslu  ‌‌‌‌‌‌‌‌‌Hnjúkabyggð 30, 540 Blönduós  Sími: 452 4526  netfang: skjalhun@blonduos.is
layer6
29.11.2016
merki_125-125
Þjóðskjalasafn Íslands
Húnahornið
Forsíða
Um safnið
Þjónusta
Fréttir
Fróðleikur
Sýningar
Tenglar
Myndasafn
Reglugerðir
Saga
Hlutverk

Héraðsskjalasafn Austur–Húnavatnssýslu var formlega stofnað með bréfi þjóðskjalavarðar dagsett 5.des. 1966 en í raun var farið að safna skjölum þegar lögin um héraðsskjalasöfn tóku gildi, en þau voru nr. 7 frá l2. feb. l947

Nú gilda lög um Þjóðskjalasafn Íslands nr. 66 frá 27. júní 1985,

12. - 16. gr., fjalla um héraðsskjalasöfn.

Það var sýslunefnd Austur-Húnavatnssýslu, sem hafði forgöngu um að stofna safnið og veitti fjárframlög til þess og síðar arftaki sýslunefndarinnar, héraðsnefnd Austur - Húnavatnssýslu frá og með árinu 1989 - 2010 en þá var hún lögð niður.  

Aðstaðan samanstendur af einni skrifstofu og lessal ásamt geymslu fyrir gögn og myndir sem afhentar hafa verið til varðveislu.

Skjalasafnið er undir sérstakri stjórn, sem Byggðarsamlag atvinnu- og menningarmála kýs.
Hana skipa:
Adolf Berndsen, Skagaströnd, formaður

Meðstjórnendur

Arnar Þór Sævarsson, Blönduósi

Guðmundur Haukur Jakobsson, Blönduósi

Dagný Úlfarsdóttir, Ytra-Hóli

Sigrún Hauksdóttir, Húnavatnshrepp
Héraðsskjalavörður er Svala Runólfsdóttir

 
En safnið er ekki bara skjalasafn heldur hefur það tekið á móti og varðveitt ljósmyndir, málverk o.fl. Þegar Páll V.G. Kolka gaf út árið 1950 bókina Föðurtún, sem er héraðslýsing og ættasaga Húnvetninga, safnaði hann miklu af myndum til bókarinnar og fékk þær ýmist gefins eða að láni. Lánsmyndunum var skilað, en hann varðveitti hinar og þegar hann fór úr héraðinu afhenti hann Lionsklúbbi Blönduóss myndirnar til varðveislu.
Þá þegar höfðu nokkrar bæst við og margir vissu um þetta myndasafn. Og reyndin varð sú að fólk kom með eða sendi myndir hvaðanæva af landinu og einnig vestan frá Norður-Ameríku.

 

Ljósmyndasafn

Ljósmyndirnar sem safninu hafa borist eru komnar vel yfir 30.000 talsins og sífellt er að bætast við.

Stofnuð var facebókarsíða, sem Guðmundur Paul Jónsson Scheel sér um, þar getur fólk farið inn á síðuna, skoðað og jafnvel greint gamlar myndir og merkt inn nöfn fólks, húsa og staða. Einnig hefur fjögurra manna hópur komið saman á safninu og setið við að þekkja myndir. Sami hópurinn hefur komið tvisvar og hafa þekkst um 200 myndir nú þegar. Er þetta ómetanleg hjálp við upplýsingaöflun sem er svo mikils virði fyrir seinni kynslóðir.

 

Héraðsskjalaverðir frá stofnun skjalasafnsins:
Pétur B. Ólason 1966-1979

Þórhildur Ísberg 1979-2000
Þórarinn Torfason 2001-2003
Kolbrún Zophoniasdóttir 2005-2006
Svala Runólfsdóttir 2006-

Héraðsskjalasafnið er öllum opið án aðgangseyris.

Þjónusta við almenning og sveitarfélög felst meðal annars í því að svara fyrirspurnum úr skjölum og aðstoða gesti safnsins.
Enn fremur tekur safnið á móti einkaskjalasöfnum frá einstaklingum, félögum og fyrirtækjum og varðveitir þau þar sem þau veita aðra innsýn í sögu og mannlíf heldur en skjöl frá opinberum aðilum.
Þjónusta við sveitarfélög felst í því að varðveita skv. lögum þau skjöl sem verða til á þeirra vegum. Skjalaverðir aðstoða og veita leiðbeiningar við afhendingu og frágang skjalanna.

 

Aðgangur að skjölum.

Að jafnaði gildir sú regla að hverjum þeim, sem þess óskar, er heimill aðgangur að skjölum í vörslu safnsins.

Á þessu eru nokkrar undantekningar sem flestar lúta að almannahagsmunum og persónuvernd, svo sem skjölum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga. Skjöl sem innihalda upplýsingar um persónulega hagi einstaklinga, eru ekki opin öðrum en þeim sem málið varðar fyrr en að 80 árum liðnum frá myndun þeirra og í sumum tilfellum alls ekki opin. Sjá nánar Upplýsingalög nr. 50/1996 og Lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000

Mögulegt er að takmarka þurfi aðgang að skjölum vegna þess að þau séu í slæmu ástandi. Einnig er hugsanlegt að einkaaðilar setji takmarkanir um aðgang að skjölum.

 

Hverjum ber að skila skjölum til safnsins?

Allar stofnanir og fyrirtæki sveitarfélaganna sem að Héraðskjalasafni Austur Húnavatnssýslu standa eru afhendingarskyld með skjöl sín til safnsins. Það er lagaleg skylda hvers héraðsskjalasafns að varðveita skjöl opinberra aðila í sínu umdæmi, þ.e.a.s. öll gögn sem verða til á vegum bæjar- og sveitarfélaga á svæðinu, allra embætta, stofnana, fyrirtækja og annarrar starfsemi á þeirra vegum.
Félögum og samtökum sem njóta verulegra styrkja af opinberu fé, er einnig skylt að skila skjölum sínum til varðveislu á næsta héraðsskjalasafn. Sjá nánar í
Reglugerð um héraðsskjalasöfn.

Einkaskjöl

Héraðsskjalasafnið tekur einnig við skjölum einstaklinga til varðveislu enda er í þeim að finna margs konar fróðleik sem skjöl frá opinberum stofnunum veita enga vitneskju um. Sem dæmi um merk einkaskjöl geta verið dagbækur, bréfasöfn, bókmenntahandrit, sveitarblöð, ættfræði, búreikningar o.fl. Engu máli skiptir hvaða stöðu einstaklingurinn hefur, né aldur eða kyn og hversu mikið um er að ræða.

Til einkaskjala heyra einnig skjöl fyrirtækja og félaga. Í reglugerð er kveðið á um um að félögum sem njóti opinberra styrkja beri að skila inn sínum gögnum á héraðsskjalasafn. Það er væntanlega metnaðarmál hvers félags skilja eftir sig merki um starfsemina og að skjöl þess séu varðveitt. Oft er það svo að skjöl félags flytjast hús úr húsi með formönnum og jafnvel gleymast eða týnast við þær aðstæður. Koma má í veg fyrir slíkt með því að fela safni varðveislu gagnanna. Hið sama á við um skjöl fyrirtækja.

 

Hlutverk Héraðsskjalasafns Austur Húnavatnssýslu er söfnun, innheimta, skráning og varðveisla skjala og annarra heimilda um starfsemi og sögu héraðsins til notkunar fyrir stjórnendur og starfsmenn sveitarfélaga og stofnana þeirra svo og fyrir einstaklinga.

Þetta er gert til þess að tryggja hagsmuni og réttindi bæði opinberra aðila og einstaklinga og einnig til notkunar við fræðilegar rannsóknir á sögu svæðisins. Héraðsskjalasafnið annast einnig eftirlit og ráðgjöf varðandi skjalavörslu.

Safnið er opið öllum, hvort sem þeir eru að vinna að einhverju hávísindalegu verkefni, skrifa sögu félags eða fyrirtækis, skrifa skólaritgerð, leita að heimildum um húsið sitt eða landareign, leita að ættingjum sínum og uppruna eða bara að skoða eitthvað úr fortíðinni.

Dagleg verkefni felast einkum í innheimtu, móttöku, skráningu og frágangi skjala, hvort heldur er frá sveitarfélögum sem að safninu standa eða einstaklingum, félögum og fyrirtækjum á safnsvæðinu. Auk þess aðstoða gesti á lestrarsal við heimildaleit og annast afgreiðslu fyrirspurna.

Síðan, svona til gamans þá má geta þess að skjal getur verið margt, til dæmis:

Hvað er skjal?

Talið er að frummerking orðsins skjal sé ritað sönnunargagn, sönnun þess að einhver sáttmáli hafi verið gerður. Orðið hefur síðan fengið víðari merkingu og er nú notað um hvers kyns rituð gögn.
Skjöl eru öll skrifleg gögn, hvort sem þau eru skráð með venjulegum skriffærum, ritvél eða tölvu, á laus blöð eða bækur. Tölvupóstar eru líka skjöl sem þarf að prenta út og geyma. Gögn sem eingöngu eru inni í tölvum, þarf að athuga, með langtímavarðveislu í huga. Annað hvort að prenta út og/eða fá heimild til að varðveita það rafrænt á löglegan hátt.

Uppdrættir, ljósmyndir, filmur, örglærur, hljóðupptökur, segulbönd, tölvugögn eða önnur hliðstæð gögn sem notuð eru til varðveislu heimilda, teljast einnig til skjala.

Skjöl koma að stærstum hluta inn á safnið þegar þau hafa náð 20-30 ára aldri.

 

                                                                                         Svala Runólfsdóttir

                                                                                         héraðsskjalavörður

Til baka