layer6
Héraðsskjalasafn Austur Húnavatnssýslu  ‌‌‌‌‌‌‌‌‌Hnjúkabyggð 30, 540 Blönduós  Sími: 452 4526  netfang: skjalhun@simnet.is
layer6
8.9.2014 
merki_125-125
Þjóðskjalasafn Íslands
Húnahornið
Forsíða
Um safnið
Þjónusta
Fréttir
Fróðleikur
Sýningar
Tenglar
Myndasafn
Reglugerðir
Saga
Hlutverk

Rétturinn til þess að falla í gleymsku

Síðast uppfært: Föstudagur, 28. febrúar 2014 15:37 Laugardagur, 22. febrúar 2014 17:35

Í umræðum að undanförnu í tengslum við lagafrumvarp um skjalasöfn á Íslandi hefur borið á góma nýlegt deiluefni utan úr heimi, en það er „rétturinn til þess að falla í gleymsku“. Ekki hefur mikið verið fjallað um þetta hérlendis nema hérna á vefsíðu félagsins: Tjón á arfleifð Evrópu í nafni réttar til að falla í gleymsku. Fyrir áhugasama sem vilja glöggva sig á þessu á netinu heitir þetta á þýsku Das Recht auf Vergessenwerden og á ensku The Right to be Forgotten.

Nú hafa jafnvel komið fram skoðanir hérlendis á þann veg að rétt sé að einkunnir grunnskólabarna varðveitist ekki á skjalasöfnum, en skuli eytt. Kemur þetta spánskt fyrir sjónir því héraðsskjalasöfn hafa þurft að gefa út staðfest afrit af einkunnum úr grunnskólum til handa fólki sem hefur þurft að leita atvinnuréttinda og atvinnu hér heima sem erlendis. Mikilvægi varðveislu þessa er ótvírætt fyrir þá einstaklinga sem eiga í hlut og skyldur stjórnvalda jafnframt ótvíræðar að tryggja þá varðveislu.

Auðkennagreining á persónum (Profiling), stórgagnasöfn (Big Data) og hlutkennslanetið (Internet of Things) er m.a. það sem vekur áhyggjur og veldur þessari umræðu. Áhyggjur af réttinum til einkalífs og friðhelgi þess er það sem hangir á spýtunni.

Samtenging tiltölulega saklausra upplýsinga getur leitt til þess að hægt sé að fá mið á einstaklinga og hópa einstaklinga í markaðssetningu, við áróður og jafnvel ofsóknir. Samtenging á skjalasöfnum stjórnvalda í tölvukerfum er hluti af þessum áhyggjum t.d. að hægt sé á einum stað að leita þvert á valdmörk stjórnvalda eftir kennitölum einstaklinga og fá fram allt um samskipti eins einstaklings við ólík stjórnvöld. Mikilsvert er að kerfi stjórnvalda séu ekki samtengd með þessum hætti. Þetta hefur ekki hlotið viðhlítandi opinbera umræðu hérlendis.

„Rétturinn til þess að falla í gleymsku“ og „hið stafræna strokleður“ eru hugmyndir sem sprottnar eru af þessum áhyggjum, en fela sumpart í sér glámskyggni og skammsýni gagnvart því að hluti einkalífs og friðhelgi þess er minnið. Mannlíf án tíma og sögu er ekki til. Persónuvernd er ekki til án mannlífs og vitnisburðar um það. Mikilsvert er að hafa hugfast að ofsóknir á hendur fólki af ýmsu tagi og jafnvel útrýming þess hefur jafnan falið í sér útþurrkun á upplýsingum um það. Eyðing skjala í persónuverndarskyni er varhugaverð í því ljósi. Þar kemur til réttur fólks til að vita um sjálft sig og eiga sér sjálfsvitund og samsömun (identity), útþurrkun á upplýsingum kann að fela í sér aðför að því. Stjórnvöld ættu ekki að geta komið sér undan ábyrgð á gjörðum sínum með eyðingu skjala. Hömlur á birtingu á opinberum upplýsingum um einstaklinga kunna og að fela í sér skerðingu á tjáningarfrelsi.

Hugmyndir um þessi efni er hægt að rekja aftur til fornaldar, hugmyndir um að skrifa söguna í stjörnurnar með stjörnumerkjunum til eilífrar endurminningar eru t.d. ævafornar og angi af þessu. Minnismerki sem hugmynd er því skyld, en jafnframt hugmyndir um lærdóma af sögunni, Erinnerungskultur og Geschichtskultur (minningamenning og sögumenning) er þetta kallað á þýsku. Ekki má heldur gleyma hugmyndum um að afmá fólk úr sögunni, bæði einstaklinga og hópa, m.a. sem einhverskonar refsingu eða til þess að berja niður skoðanir og hugmyndir, stundum kallað damnatio memoriae. Vélvæðing gagna frá því á 19. öld til okkar tíma hefur skapað ný sjónarhorn á þetta og ekki síst tilkoma netsins.

Á ársráðstefnu Alþjóða skjalaráðsins (ICA-International Council on Archives) 2013 sem bar yfirskriftina „Ábyrgð, gagnsæi og aðgengi að upplýsingum“ var þetta efni tekið til umfjöllunar í tengslum við misheppnað frumvarp til stefnu Evrópusambandsins um persónuvernd.

Fleiri en 51.000 undirskriftir skjalavarða, fræðimanna og borgara urðu til þess að frumvarpinu var vísað frá til endurskoðunar. Það byggðist á „réttinum til þess að gleymast“ og átti m.a. að tryggja að einstaklingstengdum gögnum í málsskjölum stjórnvalda ætti að eyða innan ákveðins tímafrests. Afleiðingarnar voru vanhugsaðar: Vinnutímaskýrslur til útreiknings eftirlauna hefðu ekki varðveist, gögn um margar kynslóðir í rannsóknum á ástæðum Alzheimers hefðu vegna eyðingar á sjúkraskýrslum ekki verði framkvæmanlegar.

Skjalavörslustofnanir hafa sýnt og sannað ábyrga umgengni við gögn varðandi einstaklinga og haft í heiðri persónuverndandi aðgengislög og -reglur. Skjalaeyðing á hinn bóginn skerðir ekki aðeins réttindi hlutaðeigandi einstaklinga sem vilja ekki gleymast, heldur hefur grundvallaráhrif á réttindi borgarans „citoyen“ til upplýsinga, eins og Félag franskra skjalavarða hefur bent á. Belgíski sérfræðingurinn um persónuvernd Willem Debeuckelaere kallaði gögn sem varðveitt væru „af virðingu“ vera „fjársjóðshirslu lýðræðisins“. Frumvarpið hefur verið tekið til endurskoðunar og verður í fyrsta lagi tekið aftur til meðferðar innan Evrópusambandsins árið 2015.

H.S.

Til baka